Nú þegar skóla er lokið og nemendur horfnir á vit ævintýra sumarsins er gott að líta til baka yfir nýlokið skólaár.

Skólaárið 2017-2018 var um margt sérstakt hjá okkur í Tónlistarskóla Sandgerðis. Þetta var síðasta skólaárið fyrir sameiningu sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðis og starfið hjá okkur í vetur hefur einkennst af miklu og kraftmiklu hljómsveitarstarfi, miklu tónleikahaldi og samleik ýmisskonar, mun meira en áður. Starfsfólk skólans hefur markvisst og samhent unnið að því að efla starfið og gera það fjölbreyttara, skemmtilegra og sýnilegra í samfélagi okkar. Annað er einnig sérstakt; að þegar þetta er ritað eru meira en 20 manns á biðlista eftir plássi í tónlistarskólanum því nýjum umsóknum hefur rignt inn.

Nemendur hafa komið fram við ýmiss tækifæri í vetur. Til að nefna nokkur:

  • Vortónleikar í maí
  • 10 ára afmælistónleikar barnakórs Sandgerðis
  • Tónlistaratriði á árshátíð grunnskólans
  • Nemendatónleikar 12.mars
  • Dagur tónlistarskólanna haldinn hátíðlegur með gangatónleikum í febrúar
  • Lions hátíð fyrir eldri borgara
  • Kaffihúsakvöld – Nemendatónleikar á bókasafni
  • Leikið á sólrisuhátíð kvenfélagsins
  • Aðventuhátíð í safnaðarheimilinu
  • Jólatónleikar í safnaðarheimilinu í desember
  • Nemendatónleikar 16.október
  • Leikið við móttöku nýrra Sandgerðinga
  • Leikið við setningu Sandgerðisdaga o.fl.

Það er ekki síst frábæru starfsfólki skólans að þakka hversu vel hefur gengið í vetur og að sjálfsögðu glæsilegum nemendahópi á aldrinum 6 – 82 ára. Starfsfólk skólans er bæði samstillt og metnaðarfullt sem og hugmyndaríkt og faglegt. Það er stoltur tónlistarskólastjóri sem skrifar þessi orð en það er staðreynd að tónlistarskólinn í Sandgerði hefur á að skipa ákaflega hæfum kennurum sem vinna ákaflega gott starf.

Eitt er það orð sem mjög oft hefur heyrst í vetur og er það orðið ‘’kvíði’’. Það virðist hafa færst í vöxt að börn og ungmenni kljáist við kvíða. Það er hreint magnað að verða vitni að því hversu tónlistariðkun kemur þar sterkt inn. T.a.m. hafa nemendur fengið að skjótast til okkar úr grunnskólanum til að fá að spila í smá stund og skilar það sér í betri líðan, og höfum við starfsfólk orðið vitni að ótal sigrum nemenda á kvíða og að horfast í augu við sjálfa sig. Það hafa verið hjartnæmar og gefandi stundir.

Í samstarfi við grunnskólann er tónlistaruppeldi nemenda frá 1. bekk upp í 4. bekk í afar góðum farvegi. Nemendur í 1. – 3. bekk fá öfluga tónlistarkennslu hér í tónlistarskólanum þar sem blandað er saman leik, söng og hljóðfæraleik. Nemendur í 4. bekk velja sér hljóðfæri sem þau læra á í heilt ár og öðlast þar með sterkan grunn til að halda hljóðfæranámi áfram og kynnast starfsemi tónlistarskólans vel. Þess má geta að þetta fyrirkomulag 4. bekkjar kennslunnar hefur vakið athygli á landsvísu en undirritaður hefur oft fengið fyrirspurnir um starfið og fyrirkomulag þess. Það er mikilvægt að halda áfram að hlúa að þessu dýrmæta starfi því það hefur margsinnis sannast að tónlistariðkun og menntun styður t.d. við lestrarfærni, stærðfræði og félagsfærni.

Nú þegar sameining Garðs og Sandgerðis er orðin að veruleika skapast ný og spennandi tækifæri fyrir tónlistarmenntun og tónlistariðkun í sveitarfélaginu. Það skal segjast eins og er að undirritaðan klæjar í fingurna að takast á við ný verkefni og gera tónlistarlífið í samfélaginu okkar enn blómlegra, öflugra og sýnilegra.

Síðast en ekki síst vil ég og fjölskylda mín þakka fyrir ákaflega hlýjar og góðar móttökur en við erum alsæl að vera flutt í þetta góða bæjarfélag….og meira að segja kötturinn líka.

Gleðilegt sumar!

Halldór Lárusson, skólastjóri