Guðmundur Hjörtur Ákason 09.01.1937 – 09.08.2025
Nemandi okkar, Guðmundur Hjörtur Ákason er látinn, 88 ára að aldri.
Guðmundur stundaði nám hjá okkur í Tónlistarskóla Sandgerðis frá 2016. Er hann hóf nám hafði hann þegar víðfeðma kunnáttu á altflautu, las nótur og var flinkur spilari. Hann tók námið föstum tökum, æfði sig daglega og stundaði námið af ástríðu, áhuga og samviskusemi. Hann var oftast mættur hálftíma til klukkutíma fyrir kennslustund, þáði kaffibolla og naut þess að fylgjast með öðrum nemendum og samspilstímum. Hann kom iðulega fram á tónleikum skólans, prúðbúinn og vel undirbúinn. Það var gaman að spjalla um heima og geima við Guðmund og margar voru þær sögurnar sem hann deildi með okkur frá barnæsku sinni og ferli. Það var oft mikið hlegið og heyrði maður oft hlátrasköllin úr kennslustofunni er hann var í tíma. Hann naut þess mikið að vera innan um kennara sína, aðra nemendur og tónlistina. “Þetta er lífið, þetta er alger dásemd” sagði hann stundum og brosti, um tónlistina og námið.
Guðmundur var frábær fyrirmynd annara nemenda og eru það forréttindi að ungir nemendur sem og við starfsfólk skólans hafi fengið að kynnast honum. Hann var ávallt brosandi, jákvæður og hvetjandi. Við unga nemendur sagði hann stundum: “Maður á alltaf að æfa sig í klukkustund á dag og þegar maður er búinn að því, þá á maður að æfa sig í aðra klukkustund”.
Sjónvarp Víkurfrétta gerði þátt um Guðmund og tónlistarnám hans fyrir rúmum þremur árum og sjá má þáttinn hér að neðan.
Guðmundar verður sárt saknað og votta ég fjölskyldu hans, vinum og öðrum aðstandendum mína innilegustu samúð.
Halldór Lárusson, skólastjóri Tónlistarskóla Sandgerðis